Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 165/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 165/2023

Mánudaginn 21. ágúst 2023

A

gegn

Barnavernd Y

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 24. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar Y, dags. 28. febrúar 2023, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, B.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, B, er X ára gömul dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar, dags. 21. febrúar 2023, samkvæmt 17. gr. bvl.

Í greinargerð Barnaverndar Y um könnun málsins, dags. 28. febrúar 2023, kemur fram að tilkynning hafi borist 21. febrúar 2023 frá […] þess efnis að stúlkan hefði upplýst á fundi með […] fyrir nokkrum dögum. Ákveðið hafi verið að aðstoðarskólastjóri myndi ræða við hana og fengi frekari upplýsingar. Á fundi stúlkunnar með aðstoðarskólastjóra ræddi hún opinskátt um […].  

Að undangenginni könnun var mál stúlkunnar tekið fyrir hjá starfsmönnum Barnaverndar Y þann 28. febrúar 2023 og var niðurstaðan sú að ekki væri þörf á aðgerðum á grundvelli barnaverndarlaga og því hafi málinu verið lokað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. mars 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. maí 2023, var óskað eftir greinargerð Barnaverndar Y ásamt gögnum málsins. Greinargerð Barnaverndar Y barst nefndinni með bréfi, dags. 25. maí 2023. Með bréfi, dags. 31. maí 2023 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Viðbótargögn bárust frá kæranda 4. júní 2023 og með bréfi, dags. 13. júní 2023 voru þau send Barnavernd Y til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst vilja kæra lokun á máli dóttur hennar. Málinu hafi verið lokað án þess að ræða við hana en stúlkan eigi lögheimili hjá henni. Kærandi kveður dóttur sína eiga langa sögu hjá barnavernd og viðbrögð þeirra séu alltaf þau sömu, málinu sé lokað með litlum eða engum stuðningi við kæranda og fjölskyldu hennar. Kærandi kveðst vilja fá meiri þjónustu/ráðgjöf frá Barnavernd. Hún vilji fá uppeldisráðgjöf og heimsókn frá uppeldisráðgjafa til þess hjálpa þeim, sérstaklega þar sem faðir eigi erfitt með að setja mörk. Þann 21. febrúar 2023 hafi BUGL bent kæranda að leita til barnaverndar um stuðning/fræðslu fyrir stúlkuna, t.d. varðandi skjátíma. Þá telur kærandi að önnur börn hafi fengið betri þjónustu hún og hennar barn. Betri sálfræðimeðferð, fræðslu um skjánotkun o.þ.h. Kærandi telur að barnavernd veiti dóttur hennar lítinn sem engan möguleika á að koma úr vítahringnum sem sé í. Hún sé í menguðu umhverfi þar sem hún fái ekki að vera hún sjálf og það valdi þunglyndi hennar. Þá telur kærandi að barnavernd geri ekkert gagnvart föður en hún telji að það séu næg gögn sem sýni fram á vanrækslu hans.

III.  Sjónarmið Barnaverndar Y

Í greinargerð barnaverndarnefndarinnar kemur fram að um sé að ræða málefni X ára stúlku sem lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna, með lögheimili hjá föður. Mál stúlkunnar hafi fimm sinnum verið kannað á grundvelli barnaverndarlaga en frá árinu 2015 hafa alls 15 tilkynningar borist í máli stúlkunnar þar á meðal þrjár tilkynningar eftir að máli stúlkunnar var lokað með hinni kærðu ákvörðun. Tilkynningar varða m.a. heimilisofbeldi, áhyggjur af aðstæðum stúlkunnar í umsjá beggja foreldra, áhyggjur af líðan stúlkunnar, […] hegðunar, samskiptaerfiðleika á milli foreldra og barns og […] stúlkunnar.

Þann 21. febrúar 2023 hafi borist tilkynning frá skóla stúlkunnar þar sem að stúlkan hafði opnað á það að hafa […]. Bráðavakt Barnaverndar Y brást við málinu samdægurs, sbr. bráðavaktarskýrsla þar um. Haft hafi verið samband við bráðamóttöku barna og fékk stúlkan tíma í bráðaviðtal sama dag. Í samtali við föður þann 22. febrúar 2023 kom fram að læknir frá BUGL hefði rætt bæði við stúlkuna eina og foreldra. Stúlkan hafi ekki verið metin í hættu. Einnig kom fram að stúlkan ætti viðtal á BUGL þann 22. febrúar 2023 hjá bráðateymi. Í viðtali við föður þann 23. febrúar 2023 kom fram að stúlkan hafi […]. Kom fram hjá föður að stúlkan færi reglulega til sálfræðings. Sagði hann að líðan hennar væri betri. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem lágu fyrir hafi það verið mat starfsmanna á úthlutunarfundi þann 27. febrúar 2023 að málið væri þess eðlis að ekki væri talin ástæða fyrir frekari afskiptum Barnaverndar Y að málum barnsins að svo stöddu þar sem málið væri í viðeigandi farvegi í nærumhverfi.

Niðurstaða könnunar starfsmanna þann 28. febrúar 2023 hafi verið í samræmi við framangreint, þ.e. að ekki væri tilefni til afskipta á grundvelli barnaverndarlaga þar sem málið væri í viðeigandi farvegi. Foreldrum hafi verið sent bréf um lokun máls eftir könnun þann 28. febrúar 2023 þar sem þau hafi verið hvött til að fylgja málinu eftir, ræða við sálfræðing stúlkunnar um framangreint og fylgjast grannt með líðan dóttur sinnar.

Eins og fyrr greinir hafa frá því að málinu var lokað þrjár tilkynningar borist í máli stúlkunnar. Í tilkynningu frá BUGL dags. 23. febrúar 2023, sem móttekin hafi verið þann 2. mars 2023, komi fram að stúlkan hafi komið á BUGL vegna […]. Miklir samskiptaerfiðleikar séu á milli stúlkunnar og foreldra og á milli foreldra. Í tilkynningu frá kæranda, dags. 2. mars 2023, hafi komið fram að barnið […]. Þá hafi tilkynning verið skráð í málið þann 3. mars 2023 í kjölfar þess að kærandi kom til Barnaverndar Y og óskaði eftir að ræða við starfsmann. Ræddi hún mál stúlkunnar og greindi m.a. frá því að foreldrar væru ósammála um uppeldisaðferðir. Hún upplifi lítinn stuðning og erfitt sé að setja stúlkunni mörk, þá komi upp atvik eins og að […] og greini frá vanlíðan. Kom fram að mál foreldra vegna meðlags og lögheimilis væri að fara fyrir dóm. Óskaði kærandi eftir stuðningi við foreldra í uppeldi sínu. Á úthlutunarfundi þann 6. mars 2023 hafi verið tekin ákvörðun um að loka málinu í kjölfar fyrrnefndra tilkynninga þ.e. hefja ekki könnun sbr. meðfylgjandi bréf dags. 22. mars 2023 þar um.

Gögn málsins bera með sér að deilur foreldra hafi sett mark sitt á velferð og vellíðan stúlkunnar og hún sé í þörf fyrir stuðning til að ná betri líðan. Mikilvægt sé að áfram verði unnið að því markmiði að auka vellíðan hennar og farsæld með markvissum og einstaklingsbundnum stuðningi. Að mati starfsmanna Barnaverndar Y falli mál stúlkunnar undir 2 stigs þjónustu sbr. lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna sem gildi tóku þann 1. janúar 2022. Þykir því mikilvægt að stúlkan njóti stuðnings sem í boði er í nærumhverfi, svo sem sálfræðiþjónustu og aðstoðar á BUGL, og að sá stuðningur verði fullreyndur áður en hafin er málavinnsla á grundvelli Barnaverndarlaga.

Með hliðsjón af framangreindu og allra gagna málsins sé gerð krafa um að hin kærða ákvörðun, þess efnis að loka málinu, verði staðfest.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan, B, er dóttir kæranda. Mál stúlkunnar hófst í kjölfar tilkynningar sem barst barnavernd 21. febrúar 2023. Efni tilkynningar var […]. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar Y var ákveðið að loka barnaverndarmáli stúlkunnar í kjölfar könnunar máls.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndarinnar séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skuli ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort Barnavernd Y hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum stúlkunnar og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Fyrir liggur að þegar ákvörðun var tekin um að hefja könnun máls var í ljósi þeirrar tilkynningar sem borist hafði verið lagt upp með að ræða við foreldra stúlkunnar. Rætt hafi verið við föður í síma en fram kemur í niðurstöðu könnunar að kærandi hafi ekki svarað síma. Fram kemur að læknir frá BUGL og hafi rætt við stúlkuna eina og foreldra hennar. Hún hafi […]. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að könnun málsins hafi gengið eftir í samræmi við fyrirætlan þar um að öðru leyti en því að ekki náðist að ræða við kæranda í síma. Þá er til þess að líta að gögn málsins gefa til kynna að stúlkan njóti nú sérhæfðrar aðstoðar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framansögðu að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim gögnum sem aflað var í málinu.       

Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati barnaverndarnefndar að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl. Aflað hafi verið viðeigandi upplýsinga um hagi stúlkunnar og rannsókn málsins í samræmi við 41. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Barnaverndar Y.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar Y, dags. 28. febrúar 2023, um að loka máli vegna stúlkunnar B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum